Tilverutoppur-Súpur

Hér eru uppskriftir sem ég hef safnað héðan og þaðan.

Ef þú sérð uppskrift hér sem þú ert höfundur að og vilt láta geta þess eða fjarlægja uppskriftina sendu mér þá póst á tilverutoppur@gmail.com.

Sólheimasúpa

Gulrótasúpa með döðlum og karrí:
Döðlurnar mynda sætt bragð sem fellur vel við bragðsterk kryddin í súpunni. Súpan inniheldur fáar hitaeiningar, mikið af trefjum og er góð fyrir hjartað :)

2 msk ólífuolía
2 hvítlauksrif (alveg óhætt að nota meira)
1 laukur
2 sellerístönglar (ég vil meira sellerí og nota 4 stöngla)
1 msk ferskt engifer eða 1 tsk engiferduft
2 msk spelt eða heilhveiti
12 dl kjúklingasoð (ég nota vatn)
400 gr gulrætur
1 tsk karrí
1 tsk kúmínduft (cumin)
1/2 - 1 tsk svartur pipar
1 dl döðlur
1 msk sítrónusafi
1 dl AB-mjólk eða súrmjólk

Hitið olíuna í potti. Merjið hvítlauk, saxið lauk og sellerí og bætið út í ásamt rifnu engiferi. Hitið í 3 - 4 mínútur í olíunni og hrærið vel. Takið af hitanum og stráið hveiti yfir. Hitið í tvær mínútur til viðbótar og hrærið vel. Hellið nú kjúklingasoðinu/vatninu í mjórri bunu út í súpuna og hræið vel. Rífið gulræturnar, bætið út í súpuna ásamt karrí, kúmíndufti og pipar og hleypið upp suðu. Lækkið hitann og látið súpuna malla í tíu mínútur. Bætið söxuðum döðlum út í og látið malla áfram í fimm mínútur. Hellið súpunni í matkvörn og maukið. Hellið aftur í pottinn og hitið. Bætið sítrónusafa saman við. Ausið súpunni á diska. Setjið 1 msk AB-mjólk eða súrmjólk á hvern disk og búið til mynstur með gaffli.